7.11.2014

KV - Umf. Kormákur eigast við í Kennaraháskólanum, 8. nóvember kl. 14:00

Þá er loksins komið að því! Fyrsti leikur meistaraflokks Kormáks í deild í körfubolta síðan, ja fyrir síðustu aldamót.  Kormáksmenn mæta í bæinn og sækja heim Vesturbæingana í KV, í Kennaraháskólanum.

Liðið er vitaskuld þónokkuð breytt frá því það steig fram á parketið síðast, enda hefur t.a.m. bærinn Eyjanes breyst úr ósköp venjulegum sveitabæ yfir í þriðja stærsta þéttbýliskjarna sveitarfélagsins í millitíðinni.  Þangað sóttum við gnótt stiga í sarpinn hér forðum, en þess má geta að Bibbi kenndi einmitt Tim Duncan, framherja SA Spurs, hin óviðjafnanlegu spjaldið-ofaní skot.

En vindum okkur aftur að leiknum.  Kormáksmenn eru að fara að spila sinn fyrsta leik í deildinni, en liðið kom inn í 2. deildina í kjölfar þess að tvö lið drógu sig úr keppni.  Eftir miklar hrókeringar og 2-3 niðurfellingar á leikjum, þá hafðist það fyrir rest að fá fyrsta leik á blað.

Mótherjinn, KV, hefur nú þegar leikið tvo leiki. Þeir höfðu sigur heima gegn Stál-Úlfi, en töpuðu úti gegn toppliðinu, Reyni frá Sandgerði. Um er að ræða nokkuð sterkt lið og því morgunljóst að við þurfum að mæta þeim af fullum krafti.

Hvetjum við alla stuðningsmenn til að láta sjá sig og styðja við bakið á strákunum okkar.