KV hafði betur í stórleik helgarinnar, sem fram fór í leikfimissal Kennaraháskólans um tvöleytið á laugardag. Kormáksmenn fóru þó ekki niðurbrotnir heim og taka með sér dýrmætt innlegg í hinn svokallaða reynslubanka.
Kormáksmenn mættu í bæinn þjálfaralausir, en þjálfarateymi liðsins reyndist ekki vera við hestaheilsu. Ráð voru þó ekki svo dýr og var leitað í raðir Leiknismanna (sem áttu leik á undan okkur) og fundum við þar húnvetnskt blóð, Einar Val, sem tók að sér þjálfarahlutverkið og skilaði því með sóma.
Eftir hressilega upphitun voru línur lagðar fyrir leikinn og byrjunarlið skipað. Stürm-Zenter var Guðmundur bróðir (hans Gauja), stóran framherja skipaði Einar Reynis, lítill framherji var Benjamín "BJ-Smoove" Oddsson, í skyttuhlutverkinu var Raggi hennar Kollu og leikstjórnandahlutverkið féll í skaut Alberts "ég-hef-ann" Jóhannssonar frá Gauksmýri.
Game on!
KV náði uppkastinu og skoraði fyrstu körfu leiksins. En strax í næstu sókn komu fyrstu stig okkar, en þar var að verki Raggi skytta, meter frá 3ja stiga línu. Þetta setti heimamenn útaf laginu og strax í næstu sókn endurtók Ragnar þennan leik. 2-6 fyrir Kormák og skyttan úr Húnaþingi farin að vekja ugg hjá Vesturbæjarliðinu. Svar heimamanna var að setja svokallaða ábreiðu á hinn sjóðheita Ragnar og hafði það tilætluð áhrif. Næstu fjórar körfur komu frá KV og á meðan skaut Kormáksliðið aðallega múrsteinum og köstuðu boltanum í gríð og erg í hendur heimamanna. Gummi bróðir lét heldur til sín taka báðu megin vallarins og fór mikinn í fráköstunum og endaði fjórðunginn með heil 7. Restin af fjórðungnum var eign KV-manna, en víti frá Gumma, karfa frá BJ-Smoove og tvær frá Alberti komu okkur í 13 stig. Lokatölur þessa fyrsta leikhluta - 24-13.
Annar leikhluti fór ekki nógu vel af stað og juku heimamenn enn forskotið, áður en Sveinn Óli setti okkar fyrstu stig. Þessi leikhluti einkenndist svolítið af töpuðum boltum, en hér var að öllum líkindum sett héraðsmet í þeirri grein, 10 talsins í öðrum leikhluta. Endaði hann 28-9 fyrir gestgjafana (sem gátu ekki talist sérlega gestrisnir).
Hálfleikstölur voru því 52 stig gegn 22 stigum okkar manna. Raggi leiddi liðið í stigaskorun með 6 stig, en BJ með 5. Guðmundur var á þessum tímapunkti kominn með 11 fráköst.
Kormáksmenn girtu sig aðeins í brók í 3ja leikhluta. Hittni batnaði reyndar lítið en töpuðum boltum fór snarlega fækkandi. Fjórtán stig settum við á þá í leikhlutanum og fengum á okkur 19, sem var mikil bæting frá fyrri hálfleik. Því mátti þakka taktískum breytingum í vörn og aðeins meiri yfirvegun í sókn. Albert átti einnig afbragðsleik í fjórðungnum og setti 10 stig, þar af tvær 3ja.
Síðasti leikhlutinn var ágætur hjá okkur varnarlega, en aðeins síðri sóknarlega. Engin karfa var skoruð utan af velli, þrátt fyrir 13 tilraunir og svo fór að öll fimm stigin okkar komu af vítalínunni. Þetta getur aðeins skrifast á óþolimæði í sókninni, þar sem í fæstum tilfellum var stillt upp, heldur ætt inn í að leit að örvæntingarfullu skoti. En eins og áður sagði, þá hélt vörnin ágætlega og skoruðu heimamenn 17 stig í leikhlutanum. Lokatölur í leiknum því 88-41 fyrir heimamenn í KV.
Dómarar leiksins voru góðir og áttu fáa feila. Mjög jákvætt að fá slíka dómgæslu í deild sem þessari.
Í farteskinu
Við getum tekið ýmislegt út úr þessum leik, sumt gott en annað misgott. Menn gætu misst sig í óþarfa svekkelsi, en Kormáksliðið á mikið inni. Við höldum ótrauðir áfram og bíðum í ofvæni eftir næsta leik - ÁFRAM KORMÁKUR!
Gott:
- Vörnin í seinni hálfleik var til fyrirmyndar og ljóst að með slíkum varnarleik munu leikir framtíðarinnar reynast okkur auðveldari.
- Barátta í bæði fráköstum og lausum boltum - þarna getum við borið höfuðið hátt, því við vildum alla lausa bolta.
- Karakter - liðið sýndi aldrei uppgjöf, þrátt fyrir helst til stórt tap og það er klárlega eitthvað sem við viljum halda áfram að tileinka okkur
Slæmt:
- Ákvarðanataka var oft á tíðum ekki nógu góð. Menn gleymdu sér fulloft og létu boltann ekki ganga nógu mikið í leit að góðu skoti, heldur tóku oft fyrsta mögulega skot, oft úr jafnvægi og án þess að hafa samherja undir körfunni í frákastið.
- Tapaðir boltar voru of margir og þeim má snarlega fækka með því að minnka dribbl, fækka þversendingum og láta boltann ganga meira á milli manna.
- Skotval þarf að batna eilítið. Ef við leitum að opna skotinu, hreyfum okkur meira í´sókninni með tilheyrandi skrínum og samvinnu, þá verða skotfærin okkar betri og skotprósentan fer upp. Við þurfum líka að leita meira inn í teiginn á stóru mennina, til að skapa meira pláss fyrir utan.
Skoða tölfræði úr leik
Leiðtogar leiksins
- 14
- 30,8%
- 0%
- 1
|
- 10
- 3
- 17
- 1
|