12.11.2015

Kaflaskiptur leikur og naumt tap á Ísafirði gegn KFÍ b - 77-70

ÍsafjörðurSíðastliðinn sunnudag héldu Kormáksmenn í víking og numu land við fjörð einn sem kenndur er við ís. Þar hittu Húnvetningar fyrir Káeffíinga og skyldi þar rekja knött í gríð og erg, þar til annað liðið bæri sigur úr býtum.

Það hefur lengi reynst mörgum liðum erfitt að ná heimakærum spilurum út fyrir ristarhlið, en það héldu engu að síður tólf manns af Tanganum á leið vestur (og skiluðu þeir sér allir á leiðarenda - já og heim líka).

Þar sem fjölmiðlateymið var vant við látið þessa helgina og þ.a.l. ekki til staðar til að fylgjast með leiknum, þá verður stiklað á ansi stóru um leikinn.

Við byrjuðum leikinn betur og komumst í 4-7, en lukum fyrsta hálfleik með tveggja stiga forystu, 16-18. Leikurinn helst jafn fram í miðjan annan leikhluta, þar sem við leiddum 28-29. Þá komast heimamenn á mikið skrið og ná að byggja upp ágætis forskot, en fyrri hálfleik lýkur 46-33.

Jafnt er á með liðum í þriðja leikhluta, en KFÍ b þó ívið sterkara og eru þeir komnir með 17 stiga forskot í lok hans, 67-50.  Við náum góðum 5-11 kafla og minnkum muninn í 72-61, höldum svo áfram á sömu braut og endar leikurinn með sjö stiga sigri heimamanna, 77-70.

Við erum ekki að hitta neitt sérstaklega í leiknum og missum boltann fulloft, en getum verið ánægðir með fráköstin, en við vorum afar virkir á því sviði á báðum endum vallarins.

Við þökkum KFÍ-mönnum mikið vel fyrir að taka niður tölfræði beggja liða. Án aðkomu þeirra væri þessi pistill mjög fátæklegur. Takk fyrir okkur, Sturla og félagar, hlökkum til að fá ykkur í heimsókn í lokaleiknum í mars.

Skoða tölfræði úr leik

Leiðtogar leiksins

Stig Tölfræðileg virkni
Birkir Snær Gunnlaugsson
  • 19
  • 37,5%
  • 57,1%
  • 1
Birkir Snær Gunnlaugsson
  • 17
  • 19
  • 9
  • 1