13.1.2016

Stórsigur gegn fámennu liði Stjörnunnar b - 88 - 43

Fyrir sléttum mánuði síðan mættust Kormákur og Stjarnan b í síðasta heimaleik Kormáks á árinu 2015. Liðið var ósigrað á heimavelli fyrir leikinn, en því miður einnig jafn sigrað á útivelli. Stjörnumenn mættu með fámennan, ungan og óreyndan hóp norður í land og ráku lestina í 4. deildinni.

Kormáksmenn byrjuðu 1. leikhlutann af krafti og skoruðu fyrstu 11 stigin. Þar skiptust þeir á að skora, Birkir frá Söndum og Ingibjörn. Gestirnir komust þá loks á blað og skoruðu tvær körfur í röð. Við komumst nokkuð auðveldlega í gegn þennan fjórðunginn. Einar Reynis setur eina körfu, Daníel Geir með tvær og Sveinn Óli með 7 stig. 1. leikhluta lýkur 24-8.

Annar leikhluti byrjar eins og sá fyrsti, við setjum 10 stig áður en þeir ná að svara (með þriggja stiga). Birkir, Krissi og Valdi sáu um þann kafla fyrir okkur. Stjörnumenn fara í þrígang á línuna og nýta ekkert, en Gummi bróðir og Valdi bæta við í sarpinn. Þá kemur tvistur og þristur frá Sveini Óla, sem engin héldu böndin í þessum leik. Frændi hans, G.Hólmar frá Ósi bætti við, sem og Ingibjörn og Daníel Geir. Staðan í hálfleik, 49-11.

Við héldum í hefðir og hófum 3ja leikhluta með sama hætti og hittum fyrstu sex körfunum okkar, en Stjörnumenn settu niður tvö víti. Við missum reyndar fulloft boltann í þessum fjórðung, en skotin rata flest ofan í. Einar Reynis setti 5 stig í leikhlutanum, en Gummi á Ósi, Krissi og Ingibjörn með 4 hver. Aðrir minna.  Stjarnan beit reyndar aðeins frá sér og setti jafnmörg stig og við í leikhlutanum eða 21. Staðan eftir þrjá, 70-32.

Fjórði leikhluti var okkar sísti. Við hittum ekki vel og héldum áfram að missa boltann allnokkuð. Andstæðingarnir voru þó lítið skárri og var þeirra reynslumesti leikmaður sendur í sturtu eftir að hafa í bræði sinni grýtt boltanum í einn leikmann Kormáks. Á þeim tímapunkti voru Stjörnumenn 10-11 yfir í leikhlutanum, en þau urðu ekki fleiri stigin þeirra megin. Við settum hinsvegar síðustu 8 stig leiksins, lokatölur 88-43.

Þessi leikur lítur rosalega vel út fyrir okkur á blaði, við skorum mikið, hittum vel, fráköstum heilan helling og erum með bing af stoðsendingum. Við hefðum reyndar mátt nýta vítin betur. Við þurftum ekki að skjóta mörgum þriggja, þar sem mótstaðan var ekki mikil inni í teignum hjá þeim, ja eða yfir höfuð yfirleitt í þessum leik. Okkar helsti óvinur eru vanhugsaðar sendingar, en annan leikinn í röð köstum við boltanum frá okkur 31 sinni.  Í bæði skiptin sluppum við með skrekkinn.  Það er því aðeins tvennt í stöðunni: Vanda sendingarnar aðeins betur eða missa hann akkúrat 31 sinni í hverjum leik hér eftir og vona að þetta sé einhverskonar lukkutala hjá okkur. Hið fyrrnefnda er bersýnilega betri kosturinn.

Annars voru mjög margir að spila vel og var tölfræðileg virkni liðsmannanna nær þrefalt hærri að meðaltali í þessum leik, en í hinum leikjum tímabilsins. Við erum enn ósigraðir á heimavelli og því ber að fagna! Áfram Kormákur!

Aftur var aðdáendasíða Kormáks með Facebook-leik og aftur var það Sjoppan - söluskálinn Harpa sem gaf vinning, að þessu sinni hamborgaratilboð.

Skoða tölfræði úr leik

Leiðtogar leiksins

Stig Tölfræðileg virkni
Sveinn Óli Friðriksson
  • 14
  • 80%
  • 0%
  • 1
Ingibjörn Pálmar Gunnarsson
  • 23
  • 14
  • 9
  • 1