23.1.2016

Saga tveggja hálfleikja - ósigur úti gegn Gnúpverjum - 83-72

Gnúpverjinn Þórir setti öll sín 15 stig í seinni hálfleikKormáksmenn skelltu sér í höfuðborgina 10. janúar og áttu þar leik gegn Gnúpverjum í Kennaraháskólanum. Gnúpverjar höfðu verið á góðri siglingu í deildinni, en okkar menn án sigurs á útivelli. Fyrirfram var því við ramman reip að draga. Kormáki hafði borist liðsstyrkur rétt fyrir helgina, en Þorgrímur "Toggi" Björnsson skipti þá yfir í Kormák.

Í fyrsta leikhluta voru Gnúpverjar fyrri til að komast á blað. Birkir svaraði þó fyrir okkur úr tveimur vítaskotum. Liðin skiptust svo á að skora, en í stöðunni 12-9 tók Krissi til sinna ráða og negldi niður tveimur þristum og koma stöðunni í 12-15. Við náðum svo að bæta aðeins við og lokakörfu fjórðungsins setti svo Krissi, staðan 14-20 eftir fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti hófst eins og þeim fysta lauk, tvö víti frá Benjamín og Steini komu okkur í 14-24. 10 stiga forskot staðreynd og liðið að finna sig ágætlega í Kennó. Heimamenn náðu aðeins að minnka muninn, en við svöruðum þeim jafnharðan. Ingibjörn var atkvæðamikill í fjórðungnum með 7 stig (11 eftir fyrstu tvo) og staðan í hálfleik 29-44. 15 stiga munur og mikið sjálfstraust í Kormáksliðinu.

Þriðji leikhluti gat tæplega byrjað verr en hann gerði. Gnúpverjar settu strax þrist og í kjölfarið tvist sömuleiðis. Vörnin fór svo að smella hjá þeim og bekkur þeirra hvatti sína menn áfram af krafti. Það komur þrír þristar í viðbót frá þeim, gegn einum tvist frá okkur og sóknarleikurinn okkar heilt yfir mjög slakur og tilviljanakenndur. Brotið var á Ingabirni í þriggja stiga skoti og hann nýtti þau öll, staðan 43-51.  Enn héldu Gnúpverjar að saxa á forskotið og settu þeir á okkur 12 stig í röð, þar af tvo þrista. Staðan skyndilega 57-51 fyrir heimamenn. Við náðum að minnka muninn í 57-54, en annar góður kafli hjá Gnúpverjum skilaði þeim í 64-54. 35-10 í þriðja leikhluta, þar af 8 þristar frá Gnúpverjum.

Það þurfti að skyrpa svolítið í lófa eftir þennan fjórðung og byrjun fjórða leikhluta lofaði góðu. Þrjár körfur í röð frá Birki kom okkur í 66-60 og smá séns á að snúa dæminu við. 6-2 kafli hjá Gnúpverjum veikti þá vonir örlítið. Liðin skiptust á körfum það sem eftir lifði leiks og lokatölurnar 83-72 fyrir heimamenn.

Gott:

  • Fyrri hálfleikur var með því betra sem við höfum séð frá þessu Kormáks-liði, samspilið algjörlega frábært og vörnin góð.
  • Allir í liðinu voru að skila framlagi til liðsins og svo sannarlega hægt að tala um liðsheild.
  • Víð komum okkur oft á vítalínuna og nýttum vítin ágætlega.

Slæmt:

  • Við brugðumst ekki nógu hratt eða vel við mótlætinu í 3ja leikhluta og vörnin hefði mátt vera spiluð þéttar.
  • Við áttum erfitt með að koma boltanum upp völlinn, nær allan leikinn. Leystum það ágætlega í fyrri hálflleik, en ekki jafnvel í þeim seinni.
  • Við hættum svolítið að spila sem liðsheild þegar á móti blés. Of mikið um að menn ætluðu að redda þessu sjálfir.

Heilt yfir fínn leikur hjá okkur. Það þurfti algjöra skotsýningu frá Gnúpverjum til að slökkva í nokkuð vel samstilltu liði Kormáks. Það er enn nóg sem hægt er að bæta, en við erum klárlega á réttri leið.

Leikurinn á YouTube:

 

Skoða tölfræði úr leik

Leiðtogar leiksins

Stig Tölfræðileg virkni
Ingibjörn Pálmar Gunnarsson
  • 18
  • 100%
  • 75%
  • 1
Ingibjörn Pálmar Gunnarsson
  • 22
  • 18
  • 8
  • 1