Kormákur skellti sér í heimsókn á Laugarvatn í blíðskaparveðri laugardaginn 30. janúar sl. Benjamín hitti þar fyrir gamla liðsfélaga frá því hann var þar við nám. Gestrisni heimamanna var þó í lágmarki og vorum við sendir heim með skottið á milli lappanna eftir 34 stiga tap, 86-52.
Fyrsti leikhluti var allt að því kómískur. Laugdælir hittu nær öllu og settu m.a. 6 þrista í leikhlutanum, á meðan við létum boltann nær ekkert ganga, létum reyna mikið á einstaklingsframtakið, lélegar sendingar og óvönduð skot. Á tímabili leit út fyrir að við myndum hugsanlega bara ekkert skora í leiknum. Heimamenn komust fyrst í 11-0, en þá kom karfa frá okkur. Þeir skoruðu svo önnur 17, áður en við settum tvær í lok leikhlutans. Staðan 28-6 eftir fyrsta leikhluta og leiknum eiginlega lokið.
Annar leikhluti var litlu skárri og við í bölvuðu basli með að koma boltanum í gegnum hringinn. Uppskeran var þrjár körfur, rétt eins og í þeim fyrsta, nema núna kom einn þristur frá Óla Einari (sem var okkar stigahæsti maður í hálfleik með 7 stig). Laugdælir slökuðu aðeins á klónni og voru mun rólegri í þessum leikhluta, en voru þó ekki mikið í að misnota færin sín (við tókum 6 fráköst í fyrsta leikhluta og 8 fráköst í leikhluta númer tvö). Staðan í hálfleik 42-13.
Í þriðja leikhluta fórum við loks að spila körfubolta á ný. Boltinn fékk að ganga betur og skotin fóru að detta. Aldrei þessu vant voru það þristarnir sem voru að detta hjá okkur, fyrst Benjamín með einn í spjaldið og svo þrír í röð á góðum kafla hjá okkur, þar af tveir frá Einari Val. Við unnum þennan leikhluta 19-23 og staðan því eftir þrjá leikhluta 61-36.
Fjórði leikhlutinn var heldur ekki alslæmur hjá okkur, en heimamenn höfðu þó yfirtökin í honum og unnu hann með 9 stigum. Lokatölur leiksins 86-52.
Hvað skal segja eftir svona leik? Við vorum klárlega ekki með okkar sterkasta lið, en þeir víst ekki heldur. Laugdælir tróna verðskuldað á toppi deildarinnar, ósigraðir. Flæðið í sóknarleik þeirra var gott og vörnin sömuleiðis mjög þétt. Við söknuðum þjálfarans á bekknum í þessum leik, þar sem við brugðumst seint og illa við þeim vandamálum sem upp komu í leiknum. Agaleysi var nokkurt í okkar leik og of mikið um einstaklingsframtakið. Of margar sóknir enduðu með einni sendingu og skoti, aðrar enduðu með sendingu í hendur heimamanna. Við áttum sannarlega algjöran OFF dag. Það var kannski bara gott að taka hann út gegn besta liðinu, því þetta er eitthvað sem við viljum ekki sjá aftur í bráð. ÁFRAM KORMÁKUR!
Leikurinn á YouTube:
Skoða tölfræði úr leik
Leiðtogar leiksins
- 10
- 40%
- 100%
- 1
|
- 10
- 10
- 11
- 1
|