3.12.2014

Vörn er besta sóknin, en dugði ekki til í 62-39 tapi

D-FENSÞað má í raun segja að þetta hafi verið upplegg Kormáksmanna, þegar þeir mættu í Mosfellsbæinn og sóttu Aftureldingu heim.  Ekki hafðist nú sigurinn, þrátt fyrir fínan varnarleik oft á tíðum, en kannski full tilviljanakenndan sóknarleik.

Mosfellsbæingar komust fyrst á blað með léttu pick-n-rolli, en Ingibjörn svaraði strax fyrir okkar menn. Gestgjafarnir settu þá körfu og víti, en þristur frá Ingabirni jafnaði leikinn aftur.  Gummi bróðir kom okkur síðan yfir 5-7 niðri á póstinum og útlitið hreint ekki svo slæmt.  Fimman hélt áfram uppteknum hætti hjá Aftureldingu og fór aftur á vítalínuna (en hann hafði sett AndOne stuttu áður), en setti bara annað skotið ofan í.  Benjamín kom okkur svo í 6-10, með góðri þriggja stiga körfu.  Þegar hér er komið við sögu hefur spilamennska liðsins verið nokkuð góð, þrátt fyrir erfiðleika í fráköstum, sem þó voru ekki farnir að koma að sök.

Kom þá kafli hjá liðinu, þar sem lítið gekk. Afturelding setti á okkur 10 stig í röð og unnu sér oftar en ekki inn nýja sénsa með sóknarfráköstum. Að sama skapi reyndust stóru mennirnir þeirra okkur erfiðir.  Bjössi nær þá loks að svara fyrir Kormáksmenn eftir gott baseline drive, staðan 16-12.  Afturelding setur þá tvö stig til viðbótar, en Gummi og Sveinn Óli svara fyrir okkur, lokastaðan eftir fyrsta fjórðung, 18-16.  Heilt yfir bara nokkuð gott, hittnin viðunandi, tapaðir boltar í lágmarki og margar fínar sóknir.

2. leikhluti hófst með 4 stigum frá heimamönnum, áður en Birkir nær að svara fyrir okkur með góðu skoti.  Aftur skora heimamenn, en Bjössi fer á vítalínuna eftir gott drive í átt að körfunni.  Benjamín nær enn að minnka muninn fyrir okkur úr sterku drive-i og layupp-i, 24-21.  Lengra komumst við því miður ekki í þessum leikhluta og við tóku mörg vond skot, tapaðir boltar og of illa stigið út.  Á þessum kafla fengu heimamenn 9 vítaskot, m.a. eftir að Eyjólfi var vísað í sturtu.  Þeir nýttu þó ekki nema fjögur af þeim, en skoruðu auk þess 3 aðrar körfur og komu muninum í 13 stig fyrir hálfleik, 34-21.  Ekki mikið skorað í fyrri hálfleik og þrátt fyrir mjög dapran annan fjórðung, þá var munurinn í raun ekki það mikill að tilefni væri til að örvænta.

3. leikhluti byrjaði ágætlega hjá okkur og fyrr en varði höfðu tvö skot ratað ofan í og staðan orðin 36-25. Voru þar að verki Benjamín og Gummi bróðir úr stökkskotum utan úr teig.  Þá kom aftur frekar slæmur kafli hjá okkur og lítið gekk að koma tuðrunni ofan í.  Við fórum þó að ná einhverjum sóknarfráköstum, sem þó skilaði fulllitlu.  Vörnin hélt þó ágætlega, því heimamenn komust lítið áfram.  Helst ber hér að nefna iðnaðarblokkið hjá Bjössa, sem rataði langleiðina upp í stúku.  Liðin skiptust svo á sitthvorri körfunni, 38-27. Lengra komumst við ekki í þessum leikhluta og var það ýmist sökum lélegs skotvals eða vegna þess að blaðran vildi bara ekki í körfuna.  Það gekk þó heldur betur hjá Aftureldingu og gerðu þeir í raun út um leikinn næstu mínúturnar á eftir. 10 stiga run hjá þeim og staðan því 48-27 í lok 3ja leikhluta.

Árar voru þó ekki lagðar í bát, því við settum fyrstu tvær körfurnar í 4. leikhluta, tveggja stiga karfa frá Birki og 3ja stiga frá Ingabirni, 48-32.  Heimamenn svöruðu þá í sömu mynt með tvisti og þristi.  Þarna kom aftur tímabil sem við ætluðum bara ekki að finna blessaða möskvana þrátt fyrir margar fínar tilraunir, en það fór svo þó að lokum að Viktor komst í fínt færi undir körfu andstæðinganna og setti sín fyrstu stig, 53-34.  Aftur komu tvær körfur frá heimamönnum, á meðan Bjössi fór tvisvar á vítalínuna og setti annað niður, 57-36.  Eitt vítaskot og tveggja stiga karfa kom heimamönnum upp fyrir 60 stigin, en Bjössi bætti við góðu sniðskoti eftir góða sendingu frá Einari Reynis.  Valdi setti svo annað vítið sitt niður í lok leiks, eftir að brotið var á honum í skoti.  Lokatölur - 62-39.

Stóru mennirnir hjá Aftureldingu reyndust okkur mjög erfiðir, þá sér í lagi leikmaður 5 (17 stig og býsnin öll af fráköstum) og leikmaður 15 (skemmtilegar hreyfingar undir).  Við stigum mjög illa út og horfðum oft á boltann, í stað þess að finna manninn.  Vörnin var þó heilt yfir nokkuð góð, enda stálum við mörgum boltum, tókum ruðninga og reyndum að láta þá hafa fyrir hlutunum.  Það komu þó nokkur atvik, þar sem menn létu gabba sig fullauðveldlega upp, en heilt yfir fín frammistaða í vörninni.  Sóknarfeilar voru of margir, stigum tvisvar út af, of oft létum við verja frá okkur skot eða tókum erfið skot þegar enginn möguleiki var á sóknarfrákastinu.  Það mátti þó sjá glætu í myrkrinu, því þegar við létum boltann ganga, fengum við nokkrar glimrandi flottar sóknir og þótt skotin rötuðu ekki alltaf ofan í, þá er lítið hægt að kvarta yfir því þegar galopin skot eru tekin eftir vel framkvæmdar sóknir.  Að leik loknum þótti manni munurinn helst til of mikill, miðað við spilamennsku liðsins.  En þetta kemur hjá okkur næst!

Hér er hægt að horfa á helstu atvikin úr leiknum:

 

Skoða tölfræði úr leik

Leiðtogar leiksins

Stig Tölfræðileg virkni
Ingibjörn Pálmar Gunnarsson
  • 8
  • 16,7%
  • 0%
  • 1
Björn Þór Hermannsson
  • 8
  • 7
  • 3
  • 1