13.12.2014

Kormákur tapaði fyrsta heimaleiknum gegn ÍB, 69-84

Liðið gegn ÍB (Mynd: Ingibjörn Gunnarsson)Kormáksmenn áttu góða spretti í sínum fyrsta heimaleik, er þeir fengu ÍB úr Breiðholti í heimsókn. Liðið vann tvo fjórðunga og var oft á tíðum að gera góða hluti á dúknum. Fín mæting var í stúkuna og fá áhorfendur sérstakt hrós frá liðinu fyrir að gera umgjörð þessa fyrsta heimaleiks svo góða. Dómarar leiksins voru heimamennirnir Karl Eggertsson og Halldór Sigfússon.

Kormáksmenn byrjuðu leikinn betur og settu fyrstu sex stigin. Þar voru á ferð Benjamín, Ingibjörn og Birkir.  Fyrsta stig aðkomumanna kom af vítalínunni. Þeir fylgdu því svo eftir með annarri körfu og möguleika á víti.  Þau áttu reyndar eftir að verða allnokkur AndOne-sénsarnir hjá höfuðborgarliðinu.  Einar Reynis svaraði hinsvegar í tvígang fyrir okkar menn, eftir nokkrar misheppnaðar skottilraunir heimaliðsins. Staðan 10-3, Kormáki í (og Gumma) vil. Enn náðu ÍB-menn að koma sér á línuna eftir heppnað skot, þrjú stig þar. Gummi bróðir kom Kormáki í 12-6 með góðri körfu, en ÍB svaraði í tvígang og kom stöðunni í 12-10. Við náum aftur að setja á þá tvær körfur frá Benjamín og Alberti, en þeir svara um hæl með annarri AndOne og tvist.  Mikki átti svo lokaorðin í fjórðungnum og staðan því 18-15 eftir fyrsta leikhluta.  Góð innkoma hjá Mikka (2 stig, 6 fráköst, 2 stoð í fyrsta) og almennt vel spilaður leikhluti hjá liðinu.

Ef fyrsti leikhluti var eign heimamanna, þá var annar leikhluti svo sannarlega eign aðkomumanna.  Þeir ná að taka á okkur 7 stiga run og koma stöðunni í 18-22.  Þá loks nær Sveinn Óli að svara fyrir okkur.  Eitthvað gengur okkur svo brösulega að koma knettinum ofan í körfuhringinn og fáum á okkur annað 7 stiga run.  Áður en við vitum af, er staðan því orðin 20-29 fyrir ÍB.  Við erum á þessum tímapunkti farnir að missa þá rosalega mikið í hraðaupphlaup í kjölfar lélegra skota hjá okkur og því eru þeir að fá margar ódýrar körfur.  Sveinn Óli setur aðra körfu fyrir okkur, eftir mikið múrsteinakast.  ÍB setur á okkur tvær körfur, en Mikki nær að svara með 2 vítum og góðri körfu og kemur okkur í 26-33.  Gestirnir halda áfram að keyra í bakið á okkur og halda liðin áfram að skiptast á körfum út fjórðunginn, 32-45 í hálfleik.

Úr leik Kormáks og ÍB (Mynd: Aldís Olga / Nordanatt.is)Í hálfleik var m.a. boðið uppá hið geysiskemmtilega (og nú ódauðlega) "REX"-skot og gerði Höddi Gylfa sér lítið fyrir og smellti einu skoti frá miðju og hlaut bæði lófatak sem og eitthvað gotterí í staðinn.

Þriðji leikhluti var svo ansi áþekkur þeim þriðja, aðkomumenn héldu áfram að keyra á okkur og settu skotin sín niður, við vorum hinsvegar eitthvað minna í því.  Við komumst eiginlega aldrei í gang í leikhlutanum og töpum honum 13-24. Staðan eftir þrjá því 45-70.

Þetta batnar svo heldur í fjórða og síðasta lekhlutanum.  Við förum á línuna í tvígang, en setjum reyndar bara eitt ofaní.  Ingibjörn setur svo þrist, Gummi bróðir eina tveggja og Albert annan þrist til.  Hann bætir svo einni tveggja við. Fjórar mínútur liðnar af leikhlutanum og við leiðum hann 11-0 og munurinn skyndilega farinn úr 25 stigum niður í 14, 56-70.  Þá vakna ÍB-menn loks af værum blundi og liðin fara að skiptast á körfum. Einar Reynis setur á þeim kafla 5 stig fyrir okkur en leikmaður 7 hjá gestum setur 9 stig, staðan orðin 63-81.  Mikki og Hlynur ná svo að laga stöðuna aðeins fyrir okkur og lokatölur í leiknum 69-84.

Það var margt gott í okkar leik. Menn voru mun duglegri við að stíga út en í síðasta leik og stærsti munurinn er að við náum 18 sóknarfráköstum.  Einnig gengur boltinn mun betur og við að leita að betri skotum en í fyrstu tveimur leikjunum.  Hittnin var fyrir vikið betri og búið að fækka þriggja stiga skotunum.  Við sóttum mikið inn í teiginn og áttum oft góða spretti þar. Það var klárlega að skila sér og áttu Einar Reynis og Gummi bróðir fínan leik í sókninni fyrir vikið.  Það mætti þó ennþá fækka aðeins off-the-dribble-skotum, þar sem bestu körfurnar okkar eru klárlega að koma eftir að boltinn hefur verið látinn ganga.  Banabiti okkar í þessum leik var þó hvað við vorum seinir til baka eftir misheppnaðar sóknir.  ÍB-ingar náðu að nýta sér það og voru oftar en ekki að fá frí sniðskot á hinum endanum, sökum þess að enginn var mættur til baka.  Þetta er sem betur fer eitthvað sem ætti að vera auðvelt að laga.

Þess ber einnig að geta að fjórir leikmenn ná yfir 10 EFF(iciency)-stig og tveir í viðbót eru rétt undir því. Það segir okkur bara að liðið er að ná betur og betur saman og tæknilegum feilum fer fækkandi.

Eins og áður segir fá áhorfendur sérstakt lof í lófa fyrir að mæta og styðja liðið og er þetta mun betri mæting en er almennt á leikjum í 2. deildinni í körfubolta. Höldum uppteknum hætti og styðjum við bakið á liðinu!

Dómarar leiksins, Karl og Halldór fá einnig stóran plús fyrir sína vinnu, en þeir stóðu sig með prýði, höfðu góð tök á leiknum og gerðu fá mistök.

Skoða tölfræði úr leik

Leiðtogar leiksins

Stig Tölfræðileg virkni
Guðmundur Jósef Loftsson
  • 14
  • 42,9%
  • 50%
  • 1
Einar Reynisson
  • 19
  • 11
  • 3
  • 1